Íþróttavikan, sem kemur að venju út alla föstudaga, var með breyttu sniði þessa vikuna sökum landsleiks Íslands gegn Ísrael. Þáttastjórnandinn Helgi Fannar Sigurðsson er staddur í Búdapest, þar sem leikurinn fer fram og því var þátturinn tekinn upp með fjarfundarbúnaði þetta skiptið. Hrafnkell Freyr Ágústsson var á sínum stað í settinu og með þeim félögum var Hörður Snævar Jónsson.
Í kvöld er komið að leiknum gegn Ísrael en um er að ræða undaúrslitaleik í umspili um sæti á EM. Sigurvegarinn mætir svo Úkraínu eða Bosníu í hreinum úrslitaleik um sæti á mótinu.
Gylfi Þór Sigurðsson var ekki valinn í hópinn fyrir leikinn í kvöld og var hann alls ekki sáttur.
„Enginn af leikmönnum 18-24 í hópnum er líklegur til að tryggja okkur sigur á morgun. Ég hefði haft hann þarna,“ sagði Hörður í þættinum.
„Mér fannst líka hugmynd Tómas Þórs Þórðarsonar ansi góð. Hann hefði bara getað tekið 25 leikmenn og notað þessa daga til að sjá Gylfa. Við hefðum átt að hafa þann glugga opinn.“
Hrafnkell var sammála þessu.
„Var ekki hægt að taka einhvers konar test? Þau eru svo góð í dag. Hefði ekki verið hægt að gera það og taka stöðuna?“
Umræðan í heild er í spilaranum.