Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
Ísraelskir blaðamenn fóru ekki mjúkum höndum um Age Hareide, þjálfara íslenska karlalandsliðsins, á blaðamannafundi hér í Búdapest sem lauk rétt í þessu.
Ísland og Ísrael mætast á morgun í undanúrslitum umspils um sæti á EM. Hariede sagði á dögunum að honum finndist óþægilegt að mæta Ísrael vegna stríðsátakanna á Gasa.
„Þú tjáðir þig um stríðið í Ísrael. Þú varst að tala um hluti sem þú veist ekkert um. Sérðu eftir því sem þú sagðir? Ísrael hefur orðið fyrir fjöldamorði og þú tókst pólitíska afstöðu,“ sagði ísraelskur blaðamaður við Hareide á fundinum í dag.
„Þaðan sem ég kem er tjáningarfrelsi. Stundum ruglast orðin í þýðingunni. Ég hef mikinn áhuga á pólitík. Ég vil að það verði friður. Ég kem frá friðsömu landi og tek enga afstöðu í þessu. Þetta snýst meira um að mér þykir leiðinlegt að þurfa að spila í þessari stöðu. Ég hef ekkert á móti Ísraelum,“ svaraði Hareide.
Annar ísraelskur blaðamaður tók næst til máls.
„Áttar þú þig á hvað Ísrael hefur gengið í gegnum?“ spurði hann. „Muntu taka í höndina á Ísraelum á morgun?“ bætti hann við.
„Auðvitað mun ég gera það,“ sagði Hareide.
„Við spilum á móti fótboltamönnum og mér finnst ekki sanngjarnt að fara inn í þessa pólitísku umræðu núna. Við viljum tala um fótbolta.“