Neil Ruddock, fyrrum leikmaður Liverpool, sýnir og segir frá ótrúlegum heilsufarslegum árangri sínum á undanförnum árum.
Hinn 56 ára gamli Ruddock bætti mikið á sig eftir knattspyrnuferilinn og vó þyngst rúmlega 170 kíló. Vandinn stigmagnaðist í kórónuveirufaraldrinum en þá segist hann hafa pantað mikið af skyndibita heim.
Árið 2022 fór Ruddock hins vegar í magaermi og við það breyttist líf hans. Þá fór hann að hreyfa sig og borða hollar.
„Ég man ekki hvenær ég fékk mér síðast jakkaföt í stærð 46. Ég er stoltur af mér í dag,“ skrifaði Ruddock á samfélagsmiðla, haldandi á nýjum jakkafötum.
„Fyrir ykkur sem hafið átt erfitt, ef ég get þetta getið þið það líka. Ég er búinn að missa rúm 63 kíló og ég er hvergi nærri hættur. Mér hefur ekki liðið svona vel síðan ég var að spila.“
Hér að neðan má sjá myndir af Ruddock eftir breytingarnar.