Liverpool heimtaði vítaspyrnu undir lok leiks gegn Manchester City í gær en fékk ekki. Atvikið þykir mjög umdeilt.
Liðin mættust í gríðarlega mikilvægum leik í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar. Honum lauk með 1-1 jafntefli og er Arsenal þar með komið á toppinn, á undan Liverpool á markatölu og stigi á undan City.
Liverpool vildi sem fyrr segir fá vítaspyrnu í lokin í gær þegar Jeremy Doku sparkaði í Alexis Mac Allister inna teigs. Allt kom fyrir ekki.
VAR-dómari leiksins, Stuart Attwell, ákvað að senda dómarann Michael Oliver ekki í skjáinn og samkvæmt Sky Sports var það þar sem hann taldi að fótur Doku væri í eðlilegri stöðu er hann reyndi að hreinsa boltann frá marki.
„Hann snertir boltann en fer í bringuna á honum í kjölfarið. Þetta hefði getað verið víti. Þetta var mjög stór ákvörðun hjá VAR. Doku er mjög heppinn hérna,“ sagði fyrrum dómarinn Mike Dean eftir leik.