Pep Guardiola, stjóri Manchester City, hefur staðfest það að ágætis líkur séu á því að markmaðurinn Ederson verði frá í dágóðan tíma.
Ederson meiddist í gær er Liverpool tók á móti City en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.
Stefan Ortega þurfti að leysa Ederson af hólmi í leiknum og þótti standa sig prýðilega í rammanum.
Ederson er þó gríðarlega mikilvægur fyrir núverandi meistara og væri mikill skellur að missa hann í langan tíma í harðri titilbaráttu.
,,Þetta lítur ekki vel út,“ sagði Guardiola eftir leikinn og er ljóst að hann hefur áhyggjur af sínum manni.
Ederson meiddist eftir að hafa brotið á Darwin Nunez innan teigs sem gaf heimaliðinu vítaspyrnu.