Kjartan Henry Finnbogason var gestur Íþróttavikunnar sem kemur út alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Guðmundur Baldvin Nökkvason sneri aftur í Stjörnuna á dögunum, innan við ári eftir að hann hélt til Mjallby í Svíþjóð. Þá er talið að Óli Valur Ómarsso sé einnig á leið aftur í Stjörnuna frá Sirius.
Í tilefni að þessu var tekin umræða um unga leikmenn sem núa aftur úr atvinnumennsku í þættinum.
„Það var örugglega erfiðara að fara út árið 2005 þegar ég fór út og heimurinn var aðeins minni. Það er allt svo aðgengilegt í dag. Ég vil ekki sjá þá koma heim en skil þá að vissu leyti,“ sagði Kjartan.
Kjartan hélt upphaflega út í atvinnumennsku 2005 en sneri aftur 2010. Hann fór svo aftur erlendis 2014 og átti flottan atvinnumannaferil. Hann var spurður að því hvernig var að fara út í fyrra skiptið.
„Þetta var alveg skelfilegt. Ég var búinn að kynnast konunni minni og missti af öllum Verzlóböllunum. Svo var ég meiddur, braut bein í fætinum þrisvar sinnum. Og það var ekki Iphone eða Facetime. Það var kannski MSN eða MySpace.
Þetta var upp og niður eins og lífið sjálft,“ sagði Kjartan.
Umræðan í heild er í spilaranum.
Íþróttavikan er í boði Bola léttöl og Lengjunnar