Barcelona fylgist enn grannt með gangi mála hjá Mason Greenwood og skoðar þann möguleika að fá hann í sumar. Spænski miðillinn Sport segir frá þessu.
Greenwood er á láni hjá Getafe frá Manchester United. Hann hefur staðið sig frábærlega á þessari leiktíð og er með átta mörk og fimm stoðsendingar.
Börsungar sjá Greenwood sem góðan kost, sérstaklega í ljósi fjárhagsvandræða félagsins. Greenwood yrði sennilega fremur ódýr og þá líkar þeim hvað hann hefur fram að færa á vellinum.
Samningur Greenwood við United rennur út eftir næstu leiktíð en hann er ekki talinn eiga neina framtíð hjá félaginu í ljósi mála hans utan vallar. Enska félagið mun því sennilega losa sig við hann í sumar.
Samkvæmt Sport hefur Barcelona sett sig í samband við United og spurst fyrir um hugsanleg skipti Greenwood til Katalóníu í sumar.
Englendingurinn ungi var handtekinn snemma árs 2022 og grunaður um gróft ofbeldi í nánu sambandi. Eftir rúmt ár í rannsókn var málið látið niður falla.