ÍTF leggur til breytingar á lögum KSÍ vegna þess hvað gerðist síðasta sumar þegar Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings var í símanum þegar hann var í leikbanni.
Arnar var þá í sambandi við varamannabekk sinn og taldi það mega en reglurnar hjá KSÍ voru óskýrar. Hann var að lokum sektaður fyrir málið.
Tillaga ÍTF:
Þjálfari eða forystumaður sem tekur út leikbann og mætir á leikstað skal vera meðal áhorfenda frá og með einni klukkustund fyrir leik og þar til dómari hefur flautað til leiksloka. Á því tímabili má viðkomandi ekki vera á leikvellinum, boðvangi, í búningsherbergjum eða annars staðar þar sem hann getur verið í tengslum við lið sitt. Viðkomandi má ekki með neinum hætti vera í tengslum við lið sitt á sama tímabili, t.a.m. ekki í gegnum símtæki, tölvu eða með öðrum slíkum hætti.
Jafnframt er viðkomandi óheimilt að taka þátt í fjölmiðlaviðburðum á leikvangi að leik loknum. Ef leikmaður, sem jafnframt er þjálfari annars liðs, er úrskurðaður í leikbann, er honum heimilt að stjórna liði sínu á því tímabili, sem hann tekur út leikbann sem leikmaður.
Greinargerð
Uppfærsla á reglugerð í samræmi við agareglugerð FIFA. Á síðasta keppnistímabili þvældist mál þjálfara innan agakerfis KSÍ í margar vikur þar sem ákvæði þetta þótti ekki nægjanlega skýrt. Hér er tillaga um að uppfæra ákvæðið í samræmi við þá tækni sem mögulegt er að nota og í samræmi við skýrar agareglur FIFA.