Sparkspekingurinn og fyrrum leikmaður Liverpool, Jamie Carragher, átti í útistöðum við norska fjölmiðlamanninn Jan Åge Fjørtoft eftir leik Arsenal og Liverpool á sunnudag.
Bukayo Saka, Gabriel Martinelli og Leandro Trossard skoruðu mörk Arsenal í 3-1 sigri en Liverpool komst á blað með sjálfsmarki Gabriel í vörn Arsenal.
Eftir leik fagnaði Martin Ödegaard, fyrirliði Arsenal, með ljósmyndara Arsenal og tók hann myndir af honum. Þetta fór fyrir brjóstið á Carragher sem vill ekki sjá menn fagna sigrum svo innilega.
„Farðu bara inn í klefa. Þið unnuð leikinn en þetta eru þrjú stig. Þið voruð frábærir og eruð komnir aftur í titilbaráttuna, en farðu inn í klefa. Ég er ekki að grínast,“ sagði Carragher í beinni útsendingu eftir leik.
Fjørtoft, landi Ödegaard, gagnrýndi hann á samfélagsmiðlum.
„Koma svo Carragher. Leyfðu Martin að sýna ástríðu. Leyfðu honum að eiga sitt augnablik með liðsfélögum og Stuart (ljósmyndaranum),“ skrifaði hann.
Carragher svaraði á ný.
„Mér fannst þetta með ljósmyndarann of mikið, eins og fullyrðing þín um að Salah væri að fara frá Liverpool,“ skrifaði hann, en Fjørtoft fullyrti síðasta sumar að Mohamed Salah færi frá Liverpool til Al-Ittihad í Sádi-Arabíu.