Sagnfræðingurinn og íþróttaáhugamaðurinn Stefán Pálsson var gestur Íþróttavikunnar sem kemur út á 433.is, Hringbraut.is og í Sjónvarp Símans alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Albert Guðmundsson hefur farið á kostum með Genoa á leiktíðinni og hefur í kjölfarið verið orðaður annað. West Ham er til að mynda talið vilja kaupa hann.
„Það er tilfinning manns að hann klári tímabilið í Genoa,“ sagði Helgi í þættinum.
Hrafnkell tók undir þetta.
„Mér finnst það líklegast og að í kjölfarið fari hann í Juventus, Lazio eða eitthvað stórlið á Ítalíu. Ég vil líka bara sjá hann gera það. Jú, jú, West Ham er heillandi, London, risalið. Ég er ekkert viss um að hann passi inn í boltann hjá David Moyes. Ég væri frekar til í að sjá hann fara fram með Vlahovic hjá Juve. Ég held það væri betra move.“
Stefán var sammála og telur verra að skipta um lið í janúar en á sumrin.
„Í janúar ertu keyptur á öðrum forsendum. Giggin sem þú færð í janúar eru af því það er eitthvað sem er ekki að virka hjá viðkomandi liði. Það er krafa að þú reddir einhverju strax. Stundum koma peningar og tilboð sem enginn getur sagt nei við en almennt myndi ég mæla með því að menn sitji og klári þetta bara fyrir haustið.“
Umræðan í heild er í spilaranum.