Það gengur alls ekki vel hjá bakverðinum Jonny Castro þessa dagana en hann var leikmaður Wolves í nokkur ár.
Jonny eins og hann er kallaður var keyptur til Wolves árið 2019 og spilaði yfir 130 leiki fyrir félagið á fimm árum.
Nú hefur Wolves ákveðið að rifta samningi Jonny sem á að baki þrjá landsleiki fyrir Spán og var áður hjá Celta Vigo og Atletico Madrid.
Jonny var að jafna sig af meiðslum og æfði með varaliðinu þar sem allt fór úr böndunum og var honum bannað að æfa með aðalliðinu.
Spánverjinn gaf ungum leikmanni Wolves, Tawanda Chirewa, ljótt olnbogaskot og hrækti svo síðar á þjálfara varaliðsins. Hann var settur í bann út janúar en samningi hans hefur nú verið rift.
Jonny baðst afsökunar á hegðun sinni sem dugði þó ekki til en hann er enn aðeins 29 ára gamall og er fáanlegur á frjálsri sölu.