Íþróttaspekingurinn Mikael Nikulásson var gestur í Íþróttavikunni sem kemur út alla föstudaga á 433.is, Hringbraut.is og í Sjóvnarpi Símans. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Jordan Henderson yfirgaf sádiarabíska félagið Al-Ettifaq á dögunum og gekk í raðir Ajax. Hann yfirgaf Liverpool í sumar og elti seðlana til Sádí en sá svo eftir því og er kominn aftur til Evrópu.
„Ég held að fleiri leikmenn muni fylgja í kjölfarið,“ sagði Hrafnkell um málið.
Margar stjörnur fóru til Sádí í fyrra en í fréttum hefur verið fjallað um að margir þeirra séu óánægðir í landinu.
„Þú setur börnin til ömmu og afa í Bretlandi í tvö ár. Þú kaupir þér Netflix og einhverjar alvöru stöðvar og ert í einbýlishúsinu þínu þar sem er örugglega sundlaug og líkamsræktarstöð. Þú bara klárar þessu tvö ár og hirðir tékkann. Vertu ekki að væla,“ sagði Mikael sem hefur ekki mikla trú á verkefni Sáda.
„Ég held að þetta partí verði búið eftir svona tvö ár. Kannski sem betur fer.“
Umræðan í heild er í spilaranum.