Albert hefur farið á kostum með Genoa á leiktíðinni og verið besti leikmaður liðsins. Í kjölfarið hefur hann verið orðaður við stærri lið, á Ítalíu og annars staðar.
Í gær orðaði virtur blaðamaður á Ítalíu, Gianluca Di Marzio, hann við Inter, Roma og Juventus.
„Það er gaman þegar það gengur vel. Þá ertu orðaður við hitt og þetta, þegar þú ert að spila vel. Ég held og trúi því að það besta sem gerist núna er að halda dampi og klára tímabilið með Genoa. Það er held ég það eina sem kemst að hjá Alberti. Þetta snýst um að halda áfram að standa sig vel og þá geta hlutir gerst,“ segir Gummi Ben í hlaðvarpinu Enski boltinn á Fótbolta.net.
Miðað við orð Gumma Ben verður Albert því áfram hjá Genoa út leiktíðina, sem verður að teljast ansi jákvætt fyrir ítalska liðið.
„Hann er klárlega orðinn þroskaðri leikmaður og svo er hann með þjálfara í Gilardino sem gefur honum greinilega gríðarlegt sjálfstraust. Hann treystir mikið á Albert og gefur honum mjög mikið frjálsræði. Eins og ég skil þetta, þá fær Albert að spila eins og Gilardino langaði að spila sjálfur. Þegar þú færð svona traust frá þjálfaranum, þá hlýtur það að hjálpa.“