Andre Onana var í marki Manchester United þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær. Beint eftir leik brunaði hann upp á flugvöll.
Afríkumótið í knattspyrnu er farið af stað en Kamerún hefur leik á eftir og því fékk Onana að spila í gær.
Onana flaug frá Liverpool í gær en þegar hann kom til lendingar í Yamoussoukro í Fílabeinsströndinni í morgun var vélinni bannað að lenda.
Mikil þoka var á flugvellinum og hefur verið undanfarið, ekki var því leyfilegt að lenda.
Vélin þurfti því að lenda á öðrum stað og þarf Onana nú að ferðast langa leið með bíl til að komast á völlinn.
Kamerún mætir Gíneu í dag en líklegt er talið að Onana verði á bekknum í fyrsta leik.