Íþróttamálaráðherra Bretlands, Stuart Andrew, ætlar að bregðast við hegðun fyrrum knattspyrnumannsins Joey Barton á samfélagsmiðlum undanfarið.
Barton hefur undanfarnar vikur hjólað í konur sem fjalla um karlaknattspyrnu, telur hann þær ekki hafa neitt erindi í slíka umfjöllun. Barton hefur gengið ansi langt í þessari „herferð“ sinni og tekið einstaka konur í geiranum sérstaklega fyrir.
Fjöldi fólks í knattspyrnuhreyfingunni hefur gagnrýnt Barton opinberlega. Má þar nefna Gary Neville, sparkspeking og Manchester United goðsögn, sem gerði það á dögunum.
„Þetta eru ummæli sem geta opnað flóðgáttir og eru algjörlega óásættanleg,“ segir Andrew.
Bætti hann þá við að hann myndi glaður vilja ræða hegðun Barton við fulltrúa samfélagsmiðlanna sem hann notar.