Jadon Sancho er líklega á leið til Dortmund á ný frá Manchester United. Enskir miðlar segja nú að skiptin gætu gengið í gegn á næstu klukkustundum en þýska félagið vill fá annan leikmann úr ensku úrvalsdeildinni með honum.
Sancho vill ólmur snúa aftur til Dortmund, félagsins sem seldi hann til United fyrir 73 milljónir punda sumarið 2021.
Englendingurinn ungi hefur átt í stríði við stjóra United, Erik ten Hag, undanfarna mánuði og á enga framtíð á Old Trafford, að því er virðist.
Sancho er líklega á leið til Dortmund á láni og munu Þjóðverjarnir borga 3 milljónir punda fyrir þjónustu hans út tímabilið. Þurfa þeir þá að greiða hluta launa hans en Sancho þénar 270 þúsund pund á viku.
Ekki er vitað hversu stóran hluta af þeim Dortmund greiðir en það er án efa eitt af því sem verið er að semja um í viðræðum á milli félaganna.
Þá er búist við því að Dortmund muni hafa kaupmöguleika næsta sumar en verðið fer eftir því hversu mikið Sancho spilar og hvernig hann stendur sig.
Dortmund vill þá einnig fá Ian Maatsen frá Chelsea.
Hollenski vinstri bakvörðurinn er í aukahlutverki hjá Chelsea en hann var nálægt því að fara til Burnley í sumar. Hann var einmitt á láni hjá Burnley á síðustu leiktíð.
Burnley var til í að borga 30 milljónir punda fyrir Maatsen en allt kom fyrir ekki. Dortmund þyrfti líklega að greiða svipaða upphæð.
Maatsen er hollenskur U21 árs landsliðsmaður en hann kom inn í yngri lið Chelsea frá PSV árið 2018.