Declan Rice, leikmaður Arsenal, er ekki alvarlega meiddur eftir leik við Tottenham um helgina.
Það eru frábærar fréttir fyrir Arsenal en Rice kom til félagsins frá West Ham í sumarglugganum.
Rice fór meiddur af velli í 2-2 jafntefli gegn grönnunum um helgina og var óttast að meiðslin væru alvarleg.
Sem betur fer fyrir Arsenal er Rice ekki illa meiddur en verður líklega ekki með gegn Brentford í vikunni.
Arsenal spilar þá í deildabikarnum og fær Rice líklega hvíld – hann kemur til baka gegn Bournemouth næstu helgi.