fbpx
Fimmtudagur 01.júní 2023
433Sport

Bæjarstjórinn svarar harðorðum pistli Óla – „Verðum einfaldlega að huga að fordæminu sem slíkur styrkur hefði getað skapað“

Helgi Sigurðsson
Miðvikudaginn 24. maí 2023 17:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óli Stefán Flóventsson tilkynnti í gær að hann væri farinn í leyfi frá störfum sínum sem þjálfari Sindra í 2. deild karla. Hann sagði aðstæðurnar sem sveitarfélagið bjóði liðinu óboðlegar og að hann íhugaði að hætta. Bæjarstjóri Hafnar í Hornafirði hefur svarað pistlinum.

Meira
Óli Stefán dregur upp svarta mynd af ástandinu á Hornafirði: Er að bugast – „Það sem í bréfinu stóð þá féllust mér algjörlega hendur“

„Sem þjálfari knattspyrnuliðs Sindra hef ég reynt nánast allt til að benda á þá ömurlegu stöðu sem við búum við hér á okkar svæði þegar kemur að umgjörð og stuðning við starfið út frá okkar forsendum hér á Höfn í Hornafirði. Við höfum ekki keppnisvöll yfir sjö og hálfan mánuð ársins (það eru 250 km í næsta gervigrasvöll) Grasvellir okkar slæmir enda löngu komnir á tíma og æfingasvæðið ónýtt og beinlínis hættulegt,“ segir meðal annars í pistli Óla.

Í pistlinum benti Óli meðal annars á kostnað Sindra við að fara í útileiki og að bæjarfélagið kæmi ekki til móts við félagið þó svo að aðstæður séu ekki góðar.

„Um miðjan apríl áttum við heimaleik á móti Hetti/Huginn í Mjólkurbikarkeppni KSÍ. Vellirnir voru að sjálfsögðu ekki klárir þannig að við þurftum að leigja Fjarðabyggðarhöllina, en hún er á Reyðarfirði, 250 km í frá Höfn. Við þurftum því að ferja leikmannahóp og starfsfólk í vinnu við leikinn(fyrir miðasölu, veitingasölu og annað), samtals 28 manns. Í bikarkeppni þarf heimaliðið að greiða aðkomuliði helming ferðakostnaðar þannig að ofan á okkar ferðakostnað þurftum við að taka þátt í að greiða Hetti/Huginn helming af ferðakostnaði þeirra við það spila 30 km frá Egilsstöðum, við vorum jú heimaliðið. Knattspyrnudeild Sindra bað um styrk frá sveitarfélaginu sökum þess að það kostaði deildina um 400.000 kr að geta ekki spilað hér heima hjá okkur,“ skrifar Óli og segir svo frá svarinu.

„Svarið var stórt NEI, ekki ein króna því það má alls ekki gefa slæmt fordæmi með því að fara að styrkja okkur í keppnisleik,“ skrifar þjálfarinn sem nú er í leyfi og heldur svo áfram.

„Þegar ég las svarið og nákvæmlega það sem í bréfinu stóð þá féllust mér algjörlega hendur. Ég bara trúði ekki að það væri til svona lélegt viðhorf gangvart okkar frábæra starfi, að virðing og skilningur á starfi sjálfboðaliða væri svona lítill. Það eru nefnileg sjálfboðaliðarnir sem þurfa að safna fyrir og borga þessar 400.000 krónur. Þess má geta að Fjarðabyggð gaf okkur afslátt af leigu vallarins sem átti að vera 25.þús kr. klukkutíminn (við þurftum fjóra tíma í leikinn). Þá afþakkaði Höttur/Huginn okkar hlut í þeirra ferðakostnaði. Það sem meira er þá tóku þeir þátt í að leigja „heimavöllinn“ með okkur. Fjarðabyggð og Höttur/Huginn styrktu okkur semsagt meira en okkar eigið sveitarfélag.“

Það var svo um síðustu helgi sem Óli fékk nóg. „Það var svo í síðasta heimaleik á móti Þrótti Vogum sem ég hreinlega bugaðist. Algjört vonleysi og skömm heltust yfir mig við það að bjóða bæði okkar íþróttafólki, og svo frábæru liði Þróttar V. þessar vallaraðstæður og umgjörð sem í boði voru þennan dag. Það var hræðilegt að horfa á ungar stúlkur úr þriðja flokki Sindra, hjálpa félaginu við veitingasölu, sitjandi við borð úti í kuldanum í suðvestan 18 m/s, og í litlu skjóli.

Umgjörð leiksins bar það með sér að sjálfboðaliðinn er að gefast upp, ég fann það, og það sem verra er, leikmennirnir fundu það. Daginn eftir leik óskaði ég eftir leyfi frá störfum á meðan ég íhuga það hvort ég treysti mér í að vinna áfram við þessar aðstæður.“

Bæjarstjóri Hafnar á Hornafirði, Sigurjón Andrésson, svaraði pistli Jóns.

„Það er ekki gott ef þú ert að bugast og finnur fyrir neikvæðni í garð ykkar góða starfs – í þannig aðstæðum líður engum vel. Mig langar þó aðeins að bregðast við þessu fyrir hönd sveitarfélagsins.“ Svona hefst svar bæjarstjóra.

„Í fyrsta lagi tek ég heilshugar undir með þér um allt sem þú segir um mikilvægi ykkar í Sindra fyrir samfélagið – starf Sindra er okkur ómetanlegt!“

Sigurjón bendir þó á aukin stuðning sveitafélagsins. „Sveitarfélagið Hornafjörður styður UMF Sindra með samningi sem er vísitölutengdur og tryggir Sindra árlega hækkun. Samningurinn hljóðaði upp á rúmar 23 milljónir á síðasta ári og er greiddur skv. reikningi mánaðarlega. Nýlega samþykkti bæjarráð einnig samning við knattspyrnudeild um vallarumhirðu og er sá samningur upp á 3.750 þús. kr. Þá er ótalin sláttur á Jökulfellsvellinum sem var 4-5 milljónir í fyrra. Þarna er að sjálfsögðu líka ótalin kostnaður sveitarfélagsins vegna reksturs íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu og viðhalds þeirra – kostnaður sem við teljum ekki eftir okkur og erum býsna stolt af.

Í nóvember sl. óskaði UMF Sindri eftir auknum styrk til félagsins. Þá þótti okkur stjórnendum hjá sveitarfélaginu alls ekki skýrt hvers vegna þörf var á tvöföldun á styrk sveitarfélagsins á þeim tíma, né hvaða stóra breyting hefði átt sér stað hjá Ungmennafélaginu okkar sem orsakaði þessa skyndilega miklu hækkunarþörf. Og nú þegar árið hefur verið gert upp hjá Sindra og staðan er skýrari, liggur fyrir okkur að taka ákvörðun um mögulega hækkun á styrktar samningi.“

Sigurjón svaraði þá einnig dæmi Óla um bikarleikinn. „Varðandi það að sveitarfélagið hafi ekki viljað greiða krónu varðandi kostnaðinn við bikarleikinn þið þurftuð að spila á Reyðarfirði þá kom það erindi vissulega til okkar. En við sem stjórnum sveitarfélaginu verðum einfaldlega að huga að fordæminu sem slíkur styrkur hefði getað skapað. Ef við hefum styrkt knattspyrnudeild við að mæta í leikinn, hvað með næsta leik og aðra leiki annarra deilda? Þarna verður sveitarfélagið einfaldlega að gæta jafnræðis og það er miklu eðlilegra að ræða þetta í stóra samhenginu og tengt okkar núverandi styrktar samningi.“

Svar bæjarstjóra í heild

Sæll Óli Stefán,
Það er ekki gott ef þú ert að bugast og finnur fyrir neikvæðni í garð ykkar góða starfs – í þannig aðstæðum líður engum vel. Mig langar þó aðeins að bregðast við þessu fyrir hönd sveitarfélagsins.

Í fyrsta lagi tek ég heilshugar undir með þér um allt sem þú segir um mikilvægi ykkar í Sindra fyrir samfélagið – starf Sindra er okkur ómetanlegt!

Núverandi stuðningur sveitarfélagsins við Sindra
Sveitarfélagið Hornafjörður styður UMF Sindra með samningi sem er vísitölutengdur og tryggir Sindra árlega hækkun. Samningurinn hljóðaði upp á rúmar 23 milljónir á síðasta ári og er greiddur skv. reikningi mánaðarlega. Nýlega samþykkti bæjarráð einnig samning við knattspyrnudeild um vallarumhirðu og er sá samningur upp á 3.750 þús. kr. Þá er ótalin sláttur á Jökulfellsvellinum sem var 4-5 milljónir í fyrra. Þarna er að sjálfsögðu líka ótalin kostnaður sveitarfélagsins vegna reksturs íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu og viðhalds þeirra – kostnaður sem við teljum ekki eftir okkur og erum býsna stolt af.

Aukin stuðningur sveitarfélagsins til Sindra
Í nóvember sl. óskaði UMF Sindri eftir auknum styrk til félagsins. Þá þótti okkur stjórnendum hjá sveitarfélaginu alls ekki skýrt hvers vegna þörf var á tvöföldun á styrk sveitarfélagsins á þeim tíma, né hvaða stóra breyting hefði átt sér stað hjá Ungmennafélaginu okkar sem orsakaði þessa skyndilega miklu hækkunarþörf. Og nú þegar árið hefur verið gert upp hjá Sindra og staðan er skýrari, liggur fyrir okkur að taka ákvörðun um mögulega hækkun á styrktar samningi.

Vallaraðstæður okkar og næstu skref þar
Mikið vildi ég óska að hér í Hornafirði væri þegar komið fullkomið gervigras – það myndi breyta miklu. Ákvörðun um forgangsröðun á uppbyggingu íþróttamannvirkja er á næsta leiti og hefur þegar verið unnin verðmæt vinna við greiningu á stöðunni varðandi þetta. En sama hver ákvörðunin er, þá er alltaf einhver tími þar til framkvæmdir geta hafist og það leysir ekki stöðuna í dag og ekki í sumar. Þess vegna var óskað eftir því að forstöðumaður íþróttamiðstöðvar gerði sérstakar ráðstafanir og áætlun um hvernig má halda Jökulfellsvellinum í betra standi í sumar en síðasta sumar – við bindum vonir við þá áætlun.

Kostnaður við bikarleikinn – og fordæmið?!
Varðandi það að sveitarfélagið hafi ekki viljað greiða krónu varðandi kostnaðinn við bikarleikinn þið þurftuð að spila á Reyðarfirði þá kom það erindi vissulega til okkar. En við sem stjórnum sveitarfélaginu verðum einfaldlega að huga að fordæminu sem slíkur styrkur hefði getað skapað. Ef við hefum styrkt knattspyrnudeild við að mæta í leikinn, hvað með næsta leik og aðra leiki annarra deilda? Þarna verður sveitarfélagið einfaldlega að gæta jafnræðis og það er miklu eðlilegra að ræða þetta í stóra samhenginu og tengt okkar núverandi styrktar samningi.

Um þetta bókaði bæjarráð meðal annars: „Sveitarfélagið hefur ekki greitt sérstaka aðra styrki til að mæta ferðakostnaði mismunandi deilda innan Sindra. Bæjarráð vill ekki skapa fordæmi með slíku en er að sjálfsögðu alltaf til umræðu um samstarfssamninginn við ungmennafélagið okkar svo rekstur þess verði sjálfbær.“

Sindri er samfélagið okkar og við erum öll Sindri
Það er alveg ljóst að mikill metnaður hefur verið í knattspyrnudeild Sindra síðustu misseri. Það má glöggt sjá í ársreikningi deildarinnar og að mínu mati er það mikið fagnaðarefni. Á næstu dögum munum mál Sindra koma aftur inn á borð bæjarráðs og líkt og ég sagði ofar þarf að taka ákvörðun um framhaldið og hvernig við getum saman gert starf knattspyrnudeildar sjálfbært.

Að lokum vil ég ítreka að allt mitt starfsfólk, bæjarráð og bæjarstjórn skilur og metur mikilvægi Sindra í samfélaginu. En ákvörðun um aukningu styrkja upp á tugi milljóna og uppbyggingu íþróttamannvirkja upp á hundruð milljóna þess eðlis að vanda þarf til verka og horfa á hlutina í samhengi. Í samhengi við aðra uppbyggingu innviða, þjónustu við atvinnulíf og íbúa og stöðu og afkomu sveitarsjóðs. Ég vonast þó til þess að fljótlega náist breið sátt um þessi mál hjá okkur og áætlun sem allir geta sæst á.

Áfram Sindri!
Með vinsemd,
Sigurjón Andrésson – bæjarstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta er reglan sem stærstu stjörnur heims hafa farið eftir í kynlífinu

Þetta er reglan sem stærstu stjörnur heims hafa farið eftir í kynlífinu
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Nýjustu fregnir af Kane jákvæðar fyrir Manchester United og ýta undir það sem hefur verið sagt

Nýjustu fregnir af Kane jákvæðar fyrir Manchester United og ýta undir það sem hefur verið sagt
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Svona gæti lið United litið út með komu Mason Mount – Kane er næstur á blaði

Svona gæti lið United litið út með komu Mason Mount – Kane er næstur á blaði
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Vilja losna við Neville frá Miami og bauluðu á son hans – „Þetta særir mig“

Vilja losna við Neville frá Miami og bauluðu á son hans – „Þetta særir mig“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Tottenham loks að landa stjóra eftir langa leit

Tottenham loks að landa stjóra eftir langa leit
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Segir Breiðhyltinga ekki geta opnað kampavínið ef það fer ekki alla leið – „Þetta er bara hræðilegt“

Segir Breiðhyltinga ekki geta opnað kampavínið ef það fer ekki alla leið – „Þetta er bara hræðilegt“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Þarf ekki að gráta ósanngjarnan brottrekstur lengi – Fær 400 milljónir á ári í Dubai

Þarf ekki að gráta ósanngjarnan brottrekstur lengi – Fær 400 milljónir á ári í Dubai
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Fær 15 milljarða í laun á ári og ætlar að hoppa á það

Fær 15 milljarða í laun á ári og ætlar að hoppa á það