Yfirmaður Mandarin Oriental hótelsins í Munchen hefur tjáð sig um hvernig var að hýsa stórstjörnuna Harry Kane í marga mánuði.
Kane gekk í raðir Bayern Munchen í sumar frá Tottenham og bjó lengi á hótelinu en er nú loks fluttur út og býr með fjölskyldu sinni.
Dominik Rainer er yfirmaður hótelsins og sér um rekstur þess en hann hafði ekkert nema góða hluti að segja um enska framherjann.
Kane var duglegur að panta beikon og bakaðar baunir á morgnanna og var lítið í því að borða einsamall á veitingastað hótelsins.
,,Harry Kane er svo sannarlega einn af okkar fimm bestu gestum sem við höfum tekið á móti,“ sagði Rainer.
,,Hann var duglegur að panta enskan mat, hann vildi fá enskt beikon og bakaðar baunir í morgunmat, aftur og aftur.“
,,Á kvöldin var hann í því að panta sushi. Hann borðaði vanalega í herberginu þegar hann var einn í Munchen en þegar fjölskyldan kom í heimsókn mættu þau á veitingastað hótelsins.“