Weston McKennie segir að hugsun Ítala hafi breyst mikið á síðustu árum eða eftir að hann kom til Juventus fyrir rúmlega þremur árum.
McKennie er Bandaríkjamaður en fótbolti er alls ekki vinsælasta íþróttin þar í landi og voru margir efins er miðjumaðurinn kom til Juventus frá Schalke.
McKennie fann fyrir því að fólk væri að dæma hann um leið og hann kom til félagsins en staðan er svo sannarlega önnur í dag.
Þónokkrir Bandaríkjamenn spila fyrir lið á Ítalíu og er fólk byrjað að venjast því að þeir geti í raun spilað fótbolta á hæsta stigi.
,,Allir á Ítalíu halda að Bandaríkjamenn spili bara hafnabolta, körfubolta og svo framvegis. Þegar ég kom hingað fyrir þremur árum velti fólk því fyrir sér hver ég væri,“ sagði McKennie.
,,Þeir hugsuðu með sér: ‘Bandaríkjamaður? Getur hann spilað fótbolta?’ Nú er Christian Pulisic hjá AC Milan sem og Yunus Musah. Timothy Weah spilar líka með Juventus og nú vita allir að Bandaríkjamenn geta spilað fótbolta.“