Áramótaþáttur Íþróttavikunnar var af dýrari gerðinni þetta árið. Kristján Óli Sigurðsson og Hörður Snævar Jónsson mættu sem gestir í þáttinn sem Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa stýrt í vetur.
Í þættinum voru veitt hin ýmsu verðlaun og þá var farið yfir allt það helsta úr íþróttalífinu hér á landi sem og erlendis á árinu 2023.
Brottrekstur Arnars Þórs Viðarssonar úr starfi landsliðsþjálfara karla í fótbolta var að sjálfsögðu tekinn fyrir. Var hann rekinn eftir slæmt tap í Bosníu og stórsigur í Liechtenstein í undankeppni EM 2024.
Rætt var um samband hans við Albert Guðmundsson sem hann vildi ekki velja í liðið en það andaði köldu þeirra á milli. Faðir Alberts, Guðmundur Benediktsson, skrifaði pistil um málið þar sem hann gagnrýndi Arnar harðlega.
„Það hjálpaði honum 100 prósent ekki neitt í hans baráttu að lenda í því að einn af dáðari sonum þjóðarinnar í íþróttaheiminum, Gummi Ben, setjist við ritvöllinn. Sú lota féll Guðmundi og Alberti í vil og það var held ég ekki að hjálpa Arnari eitt eða neitt og hefur pottþétt haft einhver áhrif í því að hann var látinn fara,“ sagði Kristján í þættinum.
Hörður tók til máls.
„Mér er nú bara sagt að það sé ein aðalástæða þess að hann hafi verið látinn fara. Þetta var ótrúlega furðulegt mál. Svo gerist þetta í mars sem hið sáluga Fréttablað greinir frá því að þeir hafi talað saman í síma. Þannig flestir héldu að það kæmi eitthvað gott út úr því. En úr varð ein mesta sprengja sem hefur orðið í kringum landsliðið. Maður mann ekkert eftir mikið stærri málum en þetta, þetta var vont fyrir alla.“
Hörður segir að málið hafi ekki heldur litið út fyrir Guðmund.
„Eftir á að hyggja er þetta líka mjög vont fyrir Gumma Ben, að hafa verið faðir landsliðsmanns sem skrifar þennan pistil og mætir á blaðamannafund þar sem hann horfir í augu landsliðsþjálfarans án þess að spyrja neinna spurninga.
Báðir aðilar hefðu getað tæklað þetta allt öðruvísi. Ég trúi ekki að þetta hafi þurft að enda svona,“ sagði Hörður í þættinum.
Umræðan í heild er í spilaranum.