Á blaðamannafundi í dag var Erik ten Hag, stjóri Manchester United, spurður að því af hverju Mason Mount fær eins lítið að spila og raun bar vitni.
Mount kom til United frá Chelsea í sumar en hefur ekki tekist að setja sitt mark á liðið.
„Hann byrjaði tímabilið en meiddist svo. Það hægir mjög á ferlinu að koma þér inn í hlutina og var því töluvert áfall,“ sagði Ten Hag í dag.
„Nú þarf hann að berjast fyrir sæti sínu að nýju því það eru aðrir leikmenn sem eru að gera mjög vel.“
United tekur á móti Luton í ensku úrvalsdeildinni á morgun og þarf nauðsynlega á sigri að halda eftir ansi erfitt gengi undanfarið.