Nampalys Mendy vandar sínu fyrrum félagi Leicester ekki kveðjurnar í nýju viðtali.
Miðjumaðurinn gekk í raðir Leicester 2016 þegar liðið var ríkjandi Englandsmeistari en fór í sumar til franska félagsins Lens þegar samningur hans rann út.
Mendy segist hafa verið á góðu róli hjá Leicester áður en Claude Puel var rekinn 2019 og Brendan Rodgers kom inn.
„Brendan Rodgers kom inn og ýtti mér til hliðar. Það versta er að þegar ég vildi fara hleypti félagið mér ekki í burtu,“ segir Mendy.
„Ég var bara farinn að bíða eftir því að samningur minn myndi renna út. Það hefur kviknað á mér á ný eftir að ég fór.“