„Við vitum að þetta er ekki nógu gott, við verðum að taka ábyrgð á þessu. Ég verð að taka ábyrgð,“ segir Erik ten Hag, stjóri Manchester United um ástandið hjá liðinu.
United fékk 0-3 skell á heimavelli gegn Newcastle í deildarbikarnum í gær sem kemur í kjölfarið af slæmu tapi gegn Manchester City.
Byrjun United á tímabilinu er sú versta í 65 ár hjá félaginu en liðið hefur tapað 8 af fyrstu 15 leikjum tímabilsins.
„Ég finn til með stuðningsmönnum okkar, þetta var ekki eins og við eigum að gera hlutina og við þurfum að leiðrétta þetta.“
„Við þurfum að finna taktinn okkar fljótt, við eigum leik á laugardag og verðum að bæta ráð okkar. Þetta er ekki nógu gott.“
Margir telja að Ten Hag þurfi að fara að óttast um starfið sitt.