Íþróttavikan kemur út alla föstudaga á 433.is og í Sjónvarpi Símans. Þar fá þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson til sín góðan gest og þessa vikuna mætti áhrifavaldurinn Arnar Gauti Arnarsson, betur þekktur sem Lil Curly, í heimsókn.
Markvarðastaðan hjá Arsenal hefur verið í umræðunni undanfarið en David Raya mætti í sumar og hirti stöðuna af Aaron Ramsdale. Spánverjinn hefur gert nokkur mistök og er Helgi hrifnari af Ramsdale sem markverði. Hrafnkell er ekki á sama máli.
„Liverpool er með Alisson í markinu og hann gerir oft mistök. En þetta er fórnarkostnaðurinn af því að hann spili út, sé agressívur, framarlega og vaði út í alla krossa. Ég held að þú græðir meira á því en þú tapar þegar allt kemur til alls,“ sagði Hrafnkell um málið.
„Alisson vegur upp á móti mistökunum með því að vera bestur í heimi einn á einn sem dæmi. Raya hefur ekkert svona,“ sagði Helgi þá.
Hrafnkell tók til máls á ný. „Ég held þið þurfið að gefa honum tíma. Mér finnst Raya betri.“
„Jæja góði, þú um það,“ sagði Helgi að endingu.