Dimitar Berbatov, fyrrum leikmaður Manchester United og fleiri liða, segir að Wayne Rooney muni einn daginn taka við Rauðu djöflunum.
Búlgarinn lék með Rooney á Old Trafford og hefur fulla trú á honum sem knattspyrnustjóra. Rooney er nýtekinn við Birmingham í ensku B-deildinni eftir að hafa áður stýrt Derby og DC United.
„Þú getur ekki búist við því að einhver eins og Wayne verði alltaf hjá minna félagi. Hann er að taka þetta skref fyrir skref og ég virði það,“ segir Berbatov um framtíð Rooney.
„Hann er að klifra upp á við og einn daginn verður hann stjóri Manchester United. Ég held að hann sé undirbúinn fyrir það að einn daginn hringi síminn og honum verður tjáð að Manchester United bíði hans.“