Það var á 79. mínútu í stöðunni 1-0 fyrir ÍA sem leikmaður Keflavíkur sparkaði boltanum í innkast vegna meiðsla leikmanns ÍA. Skagamenn tóku innkastið og og var búist við því að boltanum yrði sparkað aftur til Keflvíkinga eins og venjan er í slíkum tilfellum.
Bjarni Guðjónsson skaut hins vegar frá miðju og skoraði, eitthvað sem hann og Skagamenn vildu meina að væri algjört óviljaverk. Í kjölfarið varð hins vegar allt vitlaust.
Þórður, sem er bróðir Bjarna, spilað sem fyrr segir leikinn en þarna var hann farinn af velli. Hann telur ekki að þetta hafi verið viljaverk.
„Honum til varnar gerðist svipað atvik svona fimm mínútum áður í leiknum. Þar dúndraði hann boltanum aftur í auglýsingarskiltin,“ segir hann í Chess After Dark.
Faðir þeirra, Guðjón Þórðarson, var þarna þjálfari ÍA og ákvað hann að Keflvíkingum yrði ekki leyft að skora hinum megin eins og kallað var eftir. Það virðist þó hafa komið til greina á einhverjum tímapunkti.
„Ég var nýfarinn út af. Það var búinn að vera rosalegur hiti í þessum leik. Svo kemur þetta mark og ég segi að við verðum að leyfa þeim að skora. Þá ráðast þeir (leikmenn Keflavíkur) allir á Bjarna. Guðjón Þórðarson sagði þá: „Ekki séns í helvíti að þeir fái að skora hjá okkur. Fyrst þeir brugðust svona við fá þeir ekki neitt.“ Þannig var það,“ segir Þórður.
Hann rifjar svo upp þegar Bjarni var eltur inn í klefa af leikmönnum Keflavíkur eftir leik.
„Bjarni var í góðu formi þarna svo þetta var allt í lagi. Hann rétt slapp.“