Sérfræðingar í dómgæslu í ensku úrvalsdeildinni hafa samþykkt það að röng ákvörðun hafi verið tekin um síðustu helgi.
Þar er verið að tala um leik Liverpool og Tottenham en dómgæslan í þessum leik var gríðarlega umdeild.
ESPN greinir frá en hópur sérfræðinga sem starfa fyrir ensku úrvalsdeildina segja að Diogo Jota hafi ekki átt skilið rautt spjald í leiknum.
Jota fékk tvö gul spjöld með stuttu millibili í seinni hálfleik en það fyrra var afskaplega umdeilt að margra mati.
Liverpool skoraði einnig mark sem átti að standa í viðureigninni en Tottenham hafði betur að lokum, 2-1.
Þessir sérfræðingar hafa skoðað málið ítarlega og telja að um ranga ákvörðun hafi verið að ræða þegar kom að brottrekstri Jota.