Breiðablik komst í gær í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar, fyrsta íslenskra karlaliða. Fjallað er um afrekið víða um heim.
Blikar tóku á móti Struga í seinni leik liðanna í gær en Kópavogsliðið vann fyrri leikinn ytra 0-1. Niðurstaðan í gær varð sú sama og Breiðablik vann því samanlagt 2-0 og fer í riðlakeppnina, þar sem dregið verður í hádeginu.
Enski miðillinn Daily Star fjallar um afrek Breiðabliks og vekur athygli á því að liðið hafi farið lengstu mögulegu leiðina í riðlakeppnina. Blikar þurftu að hefja leik í forkeppni til að komast í undankeppni Meistaradeildarinnar upphaflega. Það þýðir að liðið spilaði tíu leiki til að komast í riðlakeppnina.
Spænski miðillinn Marca tekur í svipaðan streng.
Sem fyrr segir verður dregið í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í hádeginu. Þar getur Breiðablik dregist í riðil með stórliðum á borð við Frankfurt, Fiorentina og Aston Villa.