Roy Keane spilaði aðeins með fimm ‘heimsklassa’ leikmönnum á sínum ferli hjá Manchester United.
Keane kom mörgum á óvart með þessu svari en hann nefnir þá Ryan Giggs, Denis Irwin, Paul Scholes, Mark Hughes og Eric Cantona.
Þessir leikmenn voru lengi frábærir knattspyrnumenn en athygli vekur að ekkert pláss er fyrir Cristiano Ronaldo, núverandi leikmann Al-Nassr.
Ronaldo er markahæsti landsliðsmaður sögunnar og er einnig sá markahæsti í sögu Real Madrid.
,,Við fengum ekki tækifærið til að tala um heimsklassa leikmenn. Ef ég horfi til baka þá ertu með Ryan Giggs,“ sagði Keane.
,,Ég flokka alltaf heimsklassa leikmenn sem leikmenn sem hafa gert þetta í níu til ellefu ár og Giggs var á toppnum mun lengur en það en það er það mikilvægasta til að vera talinn toppleikmaður.“
,,Í dag sjáum við leikmenn eiga góðan mánuð og þeir eru að gefa sjálfum sér hrós. Þú þarft að vera góður í mörg ár og Giggs er besta dæmið um það.“
Keane hélt áfram og nefndi þá fimm fyrir ofan en ákvað að sleppa því að tala um leikmenn eins og Ronaldo og David Beckham.