Aston Villa og Villarreal hafa náð saman um kaupverðið á Pau Torres. Helstu miðlar segja frá.
Miðvörðurinn fer til Villa á 35 milljónir punda, en hann hefur heillað með Villarreal undanfarin ár.
Torres starfaði með stjóra Villa, Unai Emery, hjá Villarreal og unnu þeir til að mynda Evrópudeildina saman 2021.
Bayern Munchen hafði einnig mikinn áhuga á Torres en er þess í stað að fá Kim Min-jae frá Ítalíumeisturum Napoli.
Villa eru stórhuga þessa dagana en liðið er á leið í Sambandsdeildina á komandi leiktíð eftir frábært gengi undir stjórn Emery á síðasta tímabili.