West Ham er tilbúið að selja Declan Rice í sumar. Sky Sports segir frá en þar segir að verðmiðinn sem West Ham hefur sett á Rice sé 120 milljónir punda.
Þar segir einnig að West Ham skoði tilboð þar sem 100 milljónir punda eru í boði og leikmaður með í kaupbæti.
Búist er við að Rice fari til Arsenal í sumar en Chelsea, Manchester United og Liverpool hafa einnig sýnt honum áhuga.
Rice er enskur landsliðsmaður en hann hafnaði 200 þúsund pundum á viku hjá West Ham en hann á tvö ár eftir af samningi sínum.
West Ham er byrjað að fá fyrirspurnir og búist er við að tilboðum fari að rigna inn þegar tímabilið er á enda en þrjár umferðir eru eftir af deildinni.
Margir setja þó spurningarmerki við verðmiðann. „Ef ég væri Manchester United myndi ég ekki eyða 100 milljónum punda í Rice, frekar í kringum 60 milljónir punda,“ segir Gary Neville meðal annars.