Danny Simpson fyrrum leikmaður Manchester United og Englandsmeistari með Leicester City greindi frá áður ósagðri sögu í hlaðvarpsþætti á dögunum, atviki sem átti sér stað degi eftir að ein af hans bestu stundum í lífinu.
,,Ég hef ekki greint frá þessu ári en fólk má alveg vita af þessu,“ sagði Simpson í hlaðvarpsþættinum Under The Cosh og hóf sögu sína.
Umrædd atburðarás átti sér stað degi eftir að hann hafði spilað fyrir Manchester United á útivelli gegn Roma í Meistaradeild Evrópu.
,,Þennan næsta dag er dyrabjöllunni á íbúðinni minni hringt. Ég svaraði og spurði hver þarna færi, heyrði ekki nákvæmlega nafnið en hleypti viðkomandi inn.“
Það sem fylgdi í kjölfarið er eitthvað sem Simspon hefði aldrei getað giskað á að myndi gerast.
,,Það birtist kona við hurðina að íbúðinni minni, hún segist vera komin fimm mánuði á leið og að ég sé faðir barnsins.
Þarna var ég svo til nýbúinn að spila stærsta leik lífs míns á þeim tíma í Meistaradeild Evrópu, náð 1-1 jafntefli gegn Francesco Totti, kem heim himinlifandi og 24 klukkustundum seinna segir ókunnug kona að ég sé faðir barns sem hún beri undir belti.“
Simpson var aðeins 19 ára á þessum tíma en hann leitaði í kjölfarið aðstoðar hjá liðsfélaga sínum hjá Manchester United, Rio Ferdinand en umrædd atburðarás átti eftir að hafa sitt að segja um næstu mánuði hjá leikmanninum.
Að lokum, eftir lítinn spilatíma og stressandi mánuði, þar sem umrædd kona herjaði á hann, hafi hann ákveðið að biðja um að fara á láni frá félaginu, komast í annað umhverfi hjá Ipswich Town.
,,Ég er bara krakki á þessum tíma, er með lögmann á mér sem segir mér að hún vilji fá hús, að hún vilji fá hitt og þetta. Til að gera langa sögu stutta þá fór ég í faðernispróf og þá kom það auðvitað í ljós að barnið var ekki mitt.
Þetta voru óraunverulegir fjórir til sex mánuðir. Algjör klikkun.“
Umræddur leikur Simpsons fyrir Manchester United gegn Roma í Meistaradeild Evrópu, reyndist hans síðasti leikur fyrir félagið.
Hann segist gera sér betur grein fyrir því núna að á þessum tíma hefði hann átt að greina Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United, frá því sem hann var að ganga í gegnum.
,,Ég var að spila í sjónvarpinu kvöldið áður gegn Roma – eitt besta kvöld lífs míns, að spila fyrir Manchester United í Meistaradeildinni gegn Roma og Totti, Ludovic, Giuly. Ég var að spila á móti heimsklassa leikmönnum og átti góðan leik.
Daginn eftir er stórri sprengju varpað á mig.“
Viðtalið við Danny Simpson í hlaðvarpsþættinum Under the Cosh má hlusta á í heild sinni hér fyrir neðan: