Einar Kárason, rithöfundur og Framari, var gestur Íþróttavikunnar með Benna Bó á föstudaginn ásamt Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs. Þar var farið yfir víðan völl í heimi íþróttanna.
Á síðasta tímabili tóku Framarar í fyrsta skipti í langan tíma þátt í efstu deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Undir stjórn Jóns Sveinssonar enduðu þeir um miðja deild í Bestu deildinni þrátt fyrir að flestir sparkspekingar hefðu spáð þeim lóðbeint niður.
Jóni hefur tekist að búa til almennilegt lið í Úlfarsárdalnum og Einar, sem er mikill stuðningsmaður Fram, er ánægður með þróun liðsins undir hans stjórn.
Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem Jóni hefur tekist að heilla Einar.
,,Ég var mjög mikill aðdáandi hans þegar að hann var leikmaður sjálfur. Hann var í gullaldarliði Fram, hafsent þar og gjarnan aftastur með framherja deildarinnar á móti sér og í staðinn fyrir að koma boltanum upp völlinn þegar að hann barst til hans, þá ákvað hann stundum að sóla nokkra fyrst.
Maður var stundum á barmi hjarta- og taugaáfalls þegar að hann fékk boltann en hann gerði þetta með svo miklum klassa.“
Nánari umræðu um Fram má sjá hér fyrir neðan: