Það má með sanni segja að Ólöf Sigríður Kristinsdóttir hafi skotist upp á landsliðssviðið með hvelli fyrr í dag er hún lék sinn fyrsta A-landsleik og skoraði tvö mörk gegn Skotlandi á Pinatar Cup.
Ólöf var til viðtals hjá KSÍ TV eftir leik þar sem hún fór yfir þennan viðburðarríka dag hjá sér.
Hún var meðal annars spurð að því hvernig tilfinningin væri svona skömmu eftir fyrsta A-landsleikinn sem hún skoraði tvö mörk í.
,,Ólýsanleg, mjög góð og gott að byrja á svona góðum nótum og setja strik í leikinn strax.“
Íslenska liðið var undir mikilli pressu í fyrri hálfleik en steig upp í þeim síðari.
Ólöf Sigríður skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark í sínum fyrsta A-landsleik á 50. mínútu eftir stoðsendingu frá Öglu Maríu Albertsdóttur.
Þá var Ólöf aftur á ferðinni aðeins mínútu síðar er hún bætti við öðru marki sínu í leiknum og tvöfaldaði forystu Íslands. Hreint út sagt frábær frammistaða frá nýliðanum í fremstu línu íslenska landsliðsins.
Hvað sagði Þorsteinn landsliðsþjálfari við ykkur í hálfleik?
,,Hann sagði okkur eiginlega bara að róa okkur niður, vera yfirvegaðar og gera þetta meira saman.“
Næsti leikur landsliðsins á Pinatar Cup, sem fer fram þann 18. febrúar næstkomandi, gegn Wales leggst mjög vel í Ólöfu sem á von á að hann verði enn betri en leikur dagsins.
Viðtalið við Ólöfu í heild sinni má sjá hér fyrir neðan:
🥳 Ólöf Sigríður Kristinsdóttir var að vonum ánægð með fyrsta A landsleik sinn.#dottir pic.twitter.com/3WLwmGXIro
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) February 15, 2023