Manchester United goðsögnin Roy Keane líkti Jack Grealish við Tom Daley, sem keppir í dýfingum, um helgina.
Grealish er á mála hjá Manchester City. Liðið mætti Aston Villa í gær og vann öruggan 3-1 sigur.
Þriðja mark City gerði Riyad Mahrez af vítapunktinum. Grealish, sem er fyrrum leikmaður Villa, krækti í vítið.
Margir stuðningsmenn Villa voru sárir og svekktir út í sinn fyrrum leikmann og sökuðu hann um að dýfa sér.
Keane telur að Grealish hafi verið klókur. „Þú verður að dæma víti þarna. Jack var mjög klár,“ segir hann.
„Jack sparkaði í raun í sjálfan sig. Hann er svolítið eins og Tom Daley en ég held að þetta hafi samt verið víti. Jack var sniðugur.
Hann veit nákvæmlega hvað hann er að gera og gefur dómaranum ekkert val nema að dæma víti.“