Það var líf og fjör í Íþróttavikunni með Benna Bó í þetta skiptið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, mætti þá í settið. Með henni þar sat Hörður Snævar Jónsson, fréttastjóri íþróttafrétta á Torgi.
Enski boltinn var til umræðu. Til að mynda Liverpool. Þorgerður er mikill stuðningsmaður liðsins, sem hefur alls ekki verið að gera vel í úrvalsdeildinni í vetur.
„Þurftu þið að draga þetta fram?“ spurði Þorgerður og hló. „Það er erfitt að benda á eitthvað eitt. Ég er reyndar þakklát Chelsea fyrir að vera nánast enn lélegri en við.
Ég var ósátt við að Klopp skildi láta Mane fara. Mér fannst hann svo mikilvægur upp á leikstíl Liverpool. Svo erum við að sjá lykilmenn eins og Van Dijk sem er ekki að eiga sama tímabil og í fyrra.“
Þorgerður segir fleira að hjá sínum mönnum en vandamálið er ekki Klopp.
„Það verður að segjast eins og er að hafsentaparið hefur ekki verið að sýna sínar bestu hliðar.
Það er enginn að fara að reyna að selja mér að hann eigi að fara. Í raun er hann síðasti maðurinn sem á að fara í kringum þetta lið. Hann þarf bara að fara að vera léttari á blaðamannafundum.“
Hörður telur að Klopp sé of trúr sínum leikmönnum.
„Ég held að vandamálið hjá Liverpool sé það sama og hjá Dortmund undir lokin. Hann er of trúr ákveðnum leikmönnum. Hann þorir ekki að skera burt.
Jurgen Klopp er ekki vandamál Liverpool en hann þarf að fá eigendurna með sér og stokka upp í þessu í sumar.“