Það var hart tekist á í nýjasta þætti Þungavigtarinnar þar sem Rikki G, Kristján Óli Sigurðsson og Mikael Nikulásson fóru yfir málin.
Þeir ræddu úrslitaleik Þungavigtarbikarsins sem fór fram þann 1. febrúar er FH valtaði yfir Blika og vann 4-0 sigur.
Kristján bendir á að það hafi vantað marga leikmenn í lið Blika, leikmenn sem spiluðu stórt hlutverk í deildarmeistaratitlinum síðasta sumar.
,,Ég sagði ykkur þetta á miðvikudaginn, ég taldi upp einhverjar sjö eða átta alvöru byssur,“ sagði Kristján um meidda leikmenn.
,,Jason Daði, Höskuldur þeir voru besti hægri vængur deildarinnar í sumar, Oliver Sigurjónsson var besti djúpi miðjumaður deildarinnar. Þeir voru meiddir,“ bætir Kristján við og hækkaði róminn er Mikael spurði hvar þeir væru.
,,Djöfull ertu heimskur maður,“ segir Kristján þá við Mikael og bendir á að þeir gætu vel verið meiddir er mótið byrjar.
,,Þetta er liðið sem spilaði og það var enginn meiddur hjá FH og leikurinn fór 4-0 og áfram gakk. Óskar hefur áhyggjur af þessu og ég get lofað þér því. Hann á ekki að tapa leikjum 4-0 en það verður gaman að sjá hvenær þeir koma úr meiðslum. Þetta er púsluspil,“ segir Mikael.
,,Jason Daði er til dæmis meiddur því hann var í aðgerð. Þú þarft að fara í aðgerð á heila og þá kannski skilurðu það,“ svarar Kristján. Þáttinn má hlusta á hér fyrir neðan.