Það er enn ekki útséð með það hvort að Enzo Fernandez gangi í raðir Chelsea frá Benfica í kvöld eða ekki.
Chelsea hefur mikinn áhuga á miðjumanninum og hljóðaði nýjasta tilboð félagsins upp á 105 milljónir punda.
Miklar og langar viðræður hafa átt sér stað á milli fulltrúa Chelsea og Benfica í kvöld og enn hefur ákvörðun ekki verið tekin með framtíð Fernandez.
Það eru ýmiss smáatriði í samningnum á milli félaganna sem þarf að fara yfir áður en hann er samþykktur, verði hann það yfirhöfuð.
Það er tæplega einn og hálfur klukkutími þar til félagaskiptaglugganum verður skellt í lás.
Takist Chelsea ekki að kaupa Fernandez í kvöld mun félagið reyna aftur við hann í sumar.
Hjá Chelsea sjá menn þó fyrir sér að mun meiri samkeppni verði um kappann frá öðrum félögum í sumar.
Í sjónvarpsþætti 433.is í gær var meðal annars rætt um hugsanleg skipti Fernandez til Chelsea og af hverju Lundúnafélagið vill fá hann sem fyrst. Það má horfa á þáttinn hér að neðan, en þar fer viðskiptafræðingurinn og sparkspekingurinn Jóhann Már Helgason yfir málin.