Cristiano Ronaldo, leikmaður Al-Nassr í Sádi-Arabíu og fyrrum leikmaður Manchester United hefur boðið fjórum fyrrum liðsfélögum sínum í Manchesterborg til Portúgal eða Sádi-Arabíu í eins konar kveðjupartý. Það er The Sun sem greinir frá.
Ronaldo fór frá Manchester United með hvelli þar sem samningi hans við félagið var rift í kjölfar viðtals sem hann veitti breska fjölmiðlamanninum Piers Morgan. Viðtalið vakti mikla athygli og skapaði mikinn glundroða en í því sagði Ronaldo farir sínar ekki sléttar hjá Manchester United eins og frægt er orðið.
Samningi Ronaldo við Manchester United var rift á tímapunkti þar sem leikmaðurinn var á fullu í undirbúningi með portúgalska landsliðinu fyrir HM í Katar undir lok síðasta árs. Þar af leiðandi tókst honum ekki að kveðja liðsfélaga sína hjá Manchester United.
Til þess að reyna bæta upp fyrir það hefur Ronaldo nú boðið fjórum fyrrum liðsfélögum sínum hjá Manchester United að hita sig, annað hvort í heimalandinu Portúgal eða í Sádi-Arabíu þar sem hann dvelur nú.
Þetta eru þeir Harry Maguire, Bruno Fernandes, Casemiro og Raphael Varane. Það er heimildarmaður The Sun, sem sagður er vel tengdur Manchester United, sem greinir frá þessu.
„Það eru enn leikmenn í leikmannahópi Manchester United sem bera ekkert nema virðingu fyrir Ronaldo og þeim þótti leiðinlegt að sjá hvernig dvöl hans hjá félaginu lauk vegna þess að þeim tókst ekki að kveðja hann.
Hann fór nýverið úr WhatsApp hópi leikmanna Manchester United en lofaði að vera áfram í sambandi og bauð þeim á heimili sitt í Lisabon eða Sádi-Arabíu.“
Allur kostnaður við ferðina verður greiddur af portúgölsku knattspyrnugoðsögninni.