Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kom í Íþróttavikuna með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut á föstudagskvöldum. Gestur með honum var Hjörvar Hafliðason, Dr. Football.
Þeir fóru yfir enska boltann en Bjarni styður Manchester United og hefur gert síðan hann var ungur. Hann er ánægður að sjá hvað Eric Ten Haag er að gera. „Hann er með hugmyndafræði sem hann er að keyra áfram og sem betur fer hefur verið stígandi í þessu. Þetta hefur ekki verið auðvelt. Ég er svo mikill Ronaldo maður að ég varð hálf fúll þegar hann fór en kannski þurfti það að gerast. Mér fannst það hundleiðinlegt.“
Hann er þó ekkert sérstaklega hrifinn af félagaskiptum Wout Weghorst til félagsins. „Mér fannst þetta skrýtin viðskipti. Mér finnst maðurinn ekki á þeim standard að passa inn í liðið. En gott og vel. Hann veit hvað hann er að gera þessi þjálfari.
Ég er orðinn leiður á Harry Maguire. Mér fannst hann hægja á öllu saman og mér fannst engin ára yfir liðinu samanborið þegar við erum með Martinez og Varane.“
Benedikt Bóas, þáttastjórnandi, spurði Hjörvar hvort ferill Harry Maguire sé búinn hjá Manchester „Hann var ekki í hóp gegn Forest. Þetta er svolítið leiðinlegt hvernig hefur farið fyrir honum. Það er erfitt fyrir hann að standa á 40 metrunum eða hvar sem hann er látinn standa því þú ert með línustrákinn fyrir aftan sig sem neitar að fara af línunni. De Gea er búinn að vera þarna í 12 ár. Hann er svo lélegur í fótbolta að það er hlægilegt. Hann sparkar yfirleitt bara útaf en við höfum þurft að díla við þetta í 12 ár.“
Hjörvar hefur þó gaman að sjá menn koma og fara til félagsins en aðdáendur Doktor Football vita og þekkja að Hjörvar verður seint talinn aðdáandi David de Gea. „Ég hef alveg gaman af því að fá einhverjar steikur inn í Manchester United. Marcos Rojo til dæmis. Ég hafði gaman af því. En ég er búinn að vera díla við De Gea í 12 ár.“
Bjarni benti þá á að Harry Maguire hefði verið kynntur til leiks fyrir tímabilið sem leiðtogi og fyrirliði liðsins. „Þetta er skrýtið með Maguire því Ten Hag var ákveðinn að kynna hann sem fyrirliða liðsins. Ég man eftir blaðamannafundi Ten Hag þar sem hann sagði að Maguire væri sinn maður og leiðtoginn í hópnum en svo bara gerist eitthvað.“