Sam Surridge hélt að hann hefði jafnað metin gegn Manchester United í undanúrslitaleik liðanna í enska deildabikarnum í gær. Markið var hins vegar dæmt af vegna naumrar rangstöðu.
Um fyrri leik liðanna var að ræða. Marcus Rashford hafði komið United yfir snemma leiks en það var um miðjan fyrri hálfleik sem Surridge kom boltanum í netið eftir sendingu Morgan Gibbs-White.
Markið var hins vegar dæmt af vegna rangstöðu. Notast var við myndbandsdómgæsluna, VAR.
Surridge ákvað að fagna að hætti Cristiano Ronaldo gegn gamla félagi portúgölsku stórstjörnunnar.
Það kom hins vegar ansi illa út þegar markið var dæmt af. Höfðu stuðningsmenn United ansi gaman að og hefur stólpagrín verið gert að Surridge síðan atvikið átti sér stað.