Enska úrvalsdeildarfélagið Everton er enn á ný í leit að knattspyrnustjóra eftir að Frank Lampard var rekinn úr stöðu knattspyrnustjóra félagsins fyrr í dag, innan við ári frá því að hann tók við stjórnartaumunum í Guttagarði.
Frammistaða Everton á yfirstandandi tímabili hefur ekki staðist væntingar. Félagið situr í 19. sæti eftir tuttugu umferðir, sem er jafnframt fallsæti, sjö stigum frá öruggu sæti í deildinni og með aðeins þrjá sigra á yfirstandandi tímabili.
Síðasti naglinn í kistu Lampard hjá Everton kom um nýliðna helgi er liðið tapaði á móti keppinautum sínum í fallbaráttunni, West Ham United með tveimur mörkum gegn engu.
Forráðamenn fá smá andrými, samt ekki mikið, til þess að ráða inn nýjan knattspyrnustjóra þar sem næsti leikur Everton í ensku úrvalsdeildinni er þann 4. febrúar næstkomandi gegn toppliði Arsenal.
Nú þegar eru veðbankar farnir að velta vöngum yfir því hver komi til með að taka við stjórnartaumunum hjá félaginu og eru þar mörg kunnugleg nöfn nefnd til sögunnar.
Sá þjálfari sem veðbankar telja líklegastan til þess að taka við stjórn liðsins er Sean Dyche, fyrrum stjóri Jóhanns Bergs Guðmundssonar hjá Burnley. Dyche þekkir erfiðið á Englandi vel eftir tíma sinn hjá Burnley þar sem að hann gerði flotta hluti við oft á tíðum erfiðar aðstæður.
Næstur á eftir honum er Argentínumaðurinn Marcelo Bielsa nefndur til sögunnar. Bielsa er afar reynslumikill stjóri með gott orðspor en hann er maðurinn sem kom Leeds United aftur upp í deild þeirra bestu. Hann var hins vegar látinn fara frá félaginu á síðasta tímabili eftur magurt gengi Leeds en ljóst er að þarna er afar reynslumikill stjóri á lausu.
David Moyes, núverandi knattspyrnustjóri West Ham United, er þá orðaður við endurkomu til Everton þar sem hann var stjóri á árunum 2002-2013 við góðan orðstír þar sem að kallið kom að lokum frá Manchester United árið 2013 og Moyes ráðinn eftirmaður Sir Alex Ferguson.
Þá er goðsögn í sögu félagsins, fyrrum markahrókurinn Wayne Rooney, orðaður við endurkomu í Guttagarð. Rooney hefur verið að gera flotta hluti á sínum þjálfaraferli en nú er hann þjálfari bandaríska liðsins DC United og þjálfar þar meðal annars Íslendinginn Guðlaug Victor Pálsson.
Rooney skaust fyrst upp á sjónarsviðið sem knattspyrnumaður hjá Everton og á hann í góðum tengslum við bæði félagið og stuðningsmenn þess.
Aðrir þjálfarar sem nefndir eru til sögunnar í þessum efnum eru Nuno Espirito Santo, fyrrum stjóri Wolves og Tottenham, Duncan Ferguson, vel þekkt stærð hjá Everton bæði sem leikmaður og þjálfari og Sam Allardyce, konungur fallbaráttunnar á Englandi.