Danski varnarmaðurinn Rasmus Christiansen hefur gengið til liðs við Aftureldingu fyrir komandi tímabil í Lengjudeildinni.
Hinn 33 ára gamli Rasmus kemur frá Val þar sem hann hefur leikið undanfarin sjö ár. Á þeim tíma vann Ramsus þrjá Íslandsmeistaratitla og einn bikarmeistaratitil.
Rasmus hefur á ferli sínum á Íslandi einnig leikið með ÍBV, KR og Fjölni en hann á að baki 172 leiki í efstu deild sem og fjölda leikja í öðrum keppnum.
„Ég átti nokkur fín samtöl við Gísla og Magga. Mér líst mjög vel á allt sem er að gerast hérna í Mosfellsbænum og langar að taka þátt í því. Ég þekki Aron Elí og hef heyrt frá honum hvernig þetta hefur verið hérna auk þess sem ég fylgdist með nokkrum leikjum síðastliðið sumar. Afturelding spilar mjög skemmtilegan bolta og það verður mjög gaman að taka þátt í því,“ sagði Rasmus eftir undirskriftina.