Sergei Palkin stjórnarformaður Shaktar Donetsk segir að Arsenal hafi boðið sömu upphæð og Chelsea í Mykhailo Mudryk sem samdi að lokum við Chelsea.
Palkin segir hins vegar frá því að Arsenal hafi verið með klásúlur sem voru ólíklegar til þess að ganga aftur.
„Þegar Arsenal bauð 62 milljónir punda og 26 milljónir punda í bónusum, þá settumst við niður og ræddum málið. Hvernig bónusar og klásúlur væru settar upp,“ segir Palkin.
„Við vildum ekki ganga að þessum samningi, ég sagði Edu (Yfirmanni knattspyrnumála hjá Arsenal) að ég hefði gert mitt besta en þetta myndi ekki ganga upp. Chelsea setti sitt tilboð upp með klásúlum um að vinna deildina og Meistaradeildina, það er líklegt til þess að ganga upp.“
Þannig heldur Palkin því fram að klásúlurnar sem Arsenal vildi hafa væru í raun óraunhæfar.
„Það á að vera möguleiki að svona bónusar gangi upp, Chelsea var því miklu meiri alvara. Við hittum Chelsea og funduðum með þeim í tíu klukkutíma. Þeir útskýrðu sitt verkefni, það er vitað að þeir eru í vandræðum núna. Það er eðlilegt þegar breytingar verða á eignarhaldi.“
„Þeir vilja gera breytingar og útskýrðu þær og hvernig þeir horfa á næstu ár. Þeim er alvara.“