Roger Schmidt, stjóri Benfica, hefur ásakað Chelsea um að sýna félaginu vanvirðingu þegar kemur að Enzo Fernandez.
Fernandez er afar eftirsóttur leikmaður en hann er á mála hjá Benfica og vann HM með Argentínu í desember aðeins 21 árs gamall.
Chelsea hefur reynt að semja um kaup á leikmanninum undanfarnar vikur en hann er með kaupákvæði í sínum samningi sem hljómar upp á 106 milljónir punda.
,,Við viljum ekki selja hann, ekki ég og ekki forsetinn. Við vitum af klásúlunni, ef hann vill fara og félag er tilbúið að borga þá upphæð þá gætum við misst hann,“ sagði Schmidt.
,,Það er félag sem vill fá hann, þeir reyndu að lokka hann í sínar raðir en vita samt sem áður að hann er aðeins fáanlegur á þessu verði. Þetta er vanvirðing á okkur öll.“
,,Þeir eru að gera leikmanninn klikkaðan, þeir þykjast vilja borga kaupákvæðið en vilja svo semja um annað verð.“