Það voru læti og dramatík í lokaumferð H-riðils á Heimsmeistaramótinu í Katar í dag.
Suður-Kórea mætti Portúgal. Síðarnefnda liðið hafði þegar tryggt sig áfram og gerði fjölda breytinga á byrjunarliði sínu í dag.
Ricardo Horta kom Portúgal yfir strax á fimmtu mínútu. Þannig var staðan þar til á 27. mínútu þegar Young-Gwong Kim skoraði.
Staðan í hálfleik var jöfn.
Það stefndi allt í jafntefli og að Suður-Kórea væri á leið úr leik þegar Hee-Chan Hwang skoraði eftir frábæran undirbúning Heung-Min Son.
Lokatölur 2-1.
Úrúgvæ mætti á sama tíma Gana. Liðið gerði sitt.
Ganverjum mistókst að komast yfir á 21. mínútu þegar Andre Ayew klikkaði á víti. Skömmu síðar kom Giorgian De Arrascaeta Úrúgvæ yfir.
Hann var aftur á ferðinni eftir rúman hálftíma leik með annað mark Úrúgvæa.
Lokatölur urðu 2-0 fyrir Úrúgvæ. Það var hins vegar ekki nóg.
Portúgal endar á toppi H-riðils með sex stig. Suður-Kórea fylgir þeim áfram í 16-liða úrslitin með fjögur stig, jafnmörg og Úrúgvæ en fer áfram á fleiri mörkum skoruðum.