Marcus Rashford, hetja Englendinga í gær tileinkaði fyrsta mark sitt í leiknum gegn Wales á HM í Katar vini sínum sem lést fyrir nokkrum dögum eftir langa baráttu við krabbamein.
Frá þessu greindi Rashford, sem skoraði tvö af þremur mörkum Englands gegn Wales í gærkvöldi, í viðtali eftir leikinn. Hann fékk fréttirnar af vini sínum aðeins fyrir nokkrum dögum.
,,Því miður missti ég einn af vinum mínum fyrir nokkrum dögum,“ greindi Rashford frá í viðtali eftir leik. ,,Hann hafði háð langa baráttu við krabbamenn. Það var gott að geta skorað fyrir hann.“
Rashford segir að þessi vinur sinn hafi stutt rækilega við bakið á sér en leikmaðurinn fagnaði fyrsta marki sínu í gærkvöldi með því að fara niður á hné og benda vísifingrum beggja handa upp til himins.
,,Hann var frábær manneskja sem ég er þakklátur fyrir að hafi komið inn í mitt líf.“
Englendingar eru komnir áfram í 16-liða úrslit HM í Katar þar sem bíður þeirra leikur gegn Senegal á sunnudaginn.