Fyrsti leikur dagsins á Heimsmeistaramótinu í Katar var á milli Kamerún og Serbíu. Óhætt er að segja að hann hafi verið afar fjörugur.
Aleksandar Mitrovic fékk tvö góð færi til að koma Serbum yfir á fyrsta stundarfjórðungi leiksins eða svo en á 29. mínútu kom Jean-Charles Castelletto Kamerún hins vegar yfir. Það gerði hann eftir hornspyrnu.
Serbar sneru leiknum við í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Fyrst jafnaði Strahinja Pavlovic með skalla eftir spyrnu Dusan Tadic.
Sergej Milinkovic-Savic kom þeim svo yfir með flottu skoti úr teignum.
Ófarir Kamerúna héldu áfram í byrjun seinni hálfleiks. Mitrovic kom Serbum í 3-1 á 53. mínútu með frábæru marki.
Það átti hins vegar margt eftir að gerast enn. Vincent Aboubakar minnkaði muninn á 64. mínútu með vippu yfir markvörð Serba. Markið var upphaflega dæmt af vegna rangstöðu en VAR sá til þess að það fékk réttilega að standa.
Eric Maxim Choupo-Moting jafnaði svo með marki skömmu síðar eftir flotta sókn.
Serbar voru líklegri til að stela sigrinum á lokamínútunum en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 3-3 í bráðskemmtilegum leik.