Ragnar Sigurðsson, fyrrum landsliðskempa og núverandi umboðsmaður fékk sér sæti í Íþróttavikunni með Benna Bó, sem sýnd er á Hringbraut alla föstudaga. Hörður Snævar Jónsson, íþróttastjóri Torgs, sat með Ragnari í settinu.
Hugsanleg sala Glazer-fjölskyldunnar á Manchester United var til umræðu, en í síðustu viku tilkynntu eigendurnir að þeir væri tilbúnir að selja félagið.
„Völlurinn er orðinn gamall og lélegur, æfingasvæðið orðið þreytt og félagið komið á eftir öllum utan vallar,“ segir Hörður um stöðu mála.
Benedikt spurði Ragnar þá út í upplifun sína af eigendum í atvinnumennskunni. Fyrrum miðvörðurinn segir eiganda Krasnodar, þar sem hann var frá 2014-2016, hafa skipt sér töluvert af.
„Hann kom allavega einu sinni, tvisvar í viku á þyrlu,“ segir Ragnar, sem lýsir mikilli bílaumferð í Krasnodar.
„Maður var stundum klukkutíma á leiðinni á æfingu þannig hann kom bara á þyrlu með tvo lífverði með sér.
Hann elskaði fótbolta og klúbbinn. Hann bjó það til 2007 eða 2008 þannig hann var með hjartað og sál í þessu, frábær maður.“
Það kom þó fyrir að eigandinn æsti sig.
„Hann kom einu sinni eða tvisvar inn í klefa eftir leik alveg brjálaður eftir að við töpuðum,“ segir Ragnar Sigurðsson.